Batagangan 2022
Í janúar munu þeir Tolli og Arnar Hauksson hefja leiðangur á hæsta fjall Ameríkuálfu Aconcauga. Verkefnið kallar þeir Batagöngu til stuðnings Batahúss.
KLÍFA ACONCAGUA TIL AÐ VEKJA ATHYGLI Á BATAHÚSI

Lista- og hugsjónamaðurinn Tolli Morthens lenti í dag í Argentínu ásamt ferðafélaga sínum Arnari Haukssyni en þar hyggjast þeir klífa fjallið Aconcagua sem liggur upp við landamæri Chile. Fjallið er hæsta fjall Suður Ameríku og í raun hæst allra fjalla utan fjallanna í Asíu. Fjallið er hluti af Andes fjöllunum og rís hæst í 6961 metra.
LEIÐANGUR TIL BETRI LÍFS
Leiðangurinn er farinn til að vekja athygli á starfsemi Batahúss sem tók til starfa á síðasta ári og um leið safna áheitum fyrir starfsemina. Batahús er einstaklingsmiðað bataúrræði við enda afplánunar þar sem einstaklingum er boðin heimilisaðstaða til allt að tveggja ára eða eftir atvikum til skemmri tíma. Unnið er með einstaklingum á jafningjagrundvelli út frá hugmyndum um áfallamiðaða nálgun. Báðir eru Tolli og Arnar í stjórn Batahúss.
GRÍÐARLEG ÓVISSA

“Þetta verður fyrir mig, mikil bata og sáttar ganga, en við tileinkum gönguna Batahúsinu og þá er meiningin að safna pening með áheitum í Sollu-sjóðinn sem styður við starfsemi hússins.” Sagði Tolli í nýársfærslu sinni á Facebook. “Fyrir utan ýmsa eðlilega fyrirvara á svona fjallgöngu þá er óvissan gríðarleg með það hvert Covid faraldurinn fer með þetta. Falla flug niður, lokast landamæri eða veikjast menn í búðum á fjallinu og fleira í þeim dúr. Við eru staðráðnir í að leggja inn fyrir góðu ári.”
SKIL FORTÍÐAR OG FRAMTÍÐAR

Tolla eru áramótin og nýárið ofarlega í huga því hann byrjar færsluna á því að segja að það sé áratuga hefð hjá honum að labba á fjall á Nýársdag meðal annars til að standa með víðsýni fyrir framan. “Þarna mitt á milli þessara fleka fortíðar og framtíðar stingur núvitundin upp kollinum eins og lítið ljós sem með árunum hefur orðið sterkara og bjartara eftir því sem maður æfir hana oftar og hjálpar manni með skilning og sátt í að skilja allt það sem hefur hrúgast upp í kjölfari manns á langri leið.”
Sollusjóður
Sollusjóður var stofnaður af Bata góðgerðarfélagi og er hlutverk hans að styrkja skjólstæðinga Batahúss með fjárhagslegum hætti til þess m.a. að sækja sér sérfræðiaðstoð hjá til að mynda sálfræðingum, fíknifræðingum og öðrum fagaðilum. Jafnframt styrkir Sollusjóður nám, námskeið, ýmis konar fræðslu og tannlæknakostnað svo eitthvað sé nefnt.
Sollusjóður er sjálfstæður sjóður og eru stjórnarmenn þrír talsins sem taka ákvörðun um styrkveitingar. Frekari upplýsingar um félagið má finna á heimasíðunni www.batahus.is
Óski styrkveitendur eftir frekari upplýsingum er hægt að senda fyrirspurn á bati@batahus.is
Meira um Sollusjóð og Batahús
Leiðin að stofnun Batahúss var meðal annars skýrsla sem starfshópur á vegum Félagsmálaráðuneytisins vann árið 2019. Þar er gegnum gangandi áhersla á heildstæða og þverfaglega nálgun í málefnum einstaklinga sem hafa hlotið fangelsisdóm.
Batahús er einstaklingsmiðað bataúrræði við enda afplánunar þar sem einstaklingum er boðin heimilisaðstaða til allt að tveggja ára eða eftir atvikum til skemmri tíma. Unnið er með einstaklingum á jafningjagrundvelli út frá hugmyndum um áfallamiðaða nálgun.
Eitt af megin markmiðum Batahúss er að skapa aðstæður þannig að einstaklingur geti beint sjónum sínum frá neyslu og afbrotum og að sjálfsstyrkingu, vinnu, námi og samfélagslegri virkni. Aðstæður eru skapaðar með virðingu og kærleik að leiðarljósi.
Hér er skýrsla á stofnfundargerð góðgerðarfélagsins Bata.
Sebastian Garcia-Fararstjóri
Fararstjórinn okkar hann Sebastian Garcia er mikill reynslubolti og hefur gengið á Aconcagua 26 sinnum, hefur hann ferðast upp og niður Andesfjöllin og toppað yfir 30 +6000m fjöll auk þess að hafa lagt undir sig hluta af Himalayafjöllum. Við erum í gríðarlega góðum höndum en Sebastian loggar ferðina okkar á Garmin GPS tæki og er því hægt að fylgjast með staðsetningu okkar í gegnum allan leiðangurinn. Við getum sent textaskilaboð með þessum leiðum og einnig tekið við slíkum ef eitthvað áríðandi kemur upp.